Hvað er hannyrðapönk?
Hannyrðir/handverk + pönk = Hannyrðapönk
Hannyrðapönk er frjálsleg þýðing mín á enska orðinu „craftivism“, sem er samsett úr ensku orðunum craft + activism.
Þrátt fyrir að hannyrðir og handverk hafi verið notað til að segja sögur frá örófi alda varð hugtakið craftivism til á hannyrðahittingi í New York árið 2003. Betsy Greer er ljósmóðir orðsins, veitti hugtakinu brautargengi og samdi, ásamt fleira hannyrðafólki, stefnuyfirlýsingu hannyrðapönkara.
Samkvæmt Betsy á hugtakið „craftivism“ rætur að rekja til pönktímabilsins og hugmyndafræða pönksins. Andófið, aktívisminn og „gerðu það sjálf/-ur/-t“ hreyfiaflið sem fylgdi því hafði mikil áhrif á hana.
Þess vegna fannst mér tilvalið að þýða hugtakið sem „hannyrðapönk“.
Hannyrðagraff er samnefnari fyrir nokkur hugtök og lausleg þýðing mín á ensku orðunum yarn bombing / yarnbombingi yarn storming, guerrilla knitting, kniffiti, urban knitting eða graffiti knitting.
Hannyrðagraff lýsir þvi þegar fólk notar hannyrðir á borð við prjón, hekl eða útsaum í graffíti/götulist sinni í stað málningar, lakkspreys eða álíka varanlegs efnis.
Hannyrðagraffi er ekki ætlað að endast lengi en, rétt eins og hannyrðapönk, er því ætlað að hafa áhrif til góðs og vekja samferðafólk okkar til umhugsunar.